148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar rætt er um að það sé ekkert mál að segja þessum samningi upp og semja upp á nýtt því að forsendur séu brostnar þá held ég að ég fari rétt með að það tók fimm til sex ár að vinna þennan samning. Það var við Evrópusambandið. Ég spyr hv. þingmann eða bið hann að hugleiða það, því hann hefur ekki tækifæri til að koma hingað upp aftur: Við hvern ætlar hann að semja í seinna skiptið um þetta sama? Ég nefni það hér að því var fagnað, og menn sáu tækifæri fyrir bændur og neytendur, á sínum tíma þegar þessi samningur var gerður, ábyrgðarmenn hans, og ég held að full ástæða sé til að horfast í augu við þá gjörð að þessum samningi erum við ekkert að fara að segja upp bara sisvona. Samskipti fullvalda ríkja ganga með allt öðrum hætti, eins og hv. þingmenn gera sér fullkomlega grein fyrir, en þeim að samningi sem tekur mörg ár að gera sé sagt upp með mánaðarfyrirvara og svo ætlist menn til að hinir sömu viðsemjendur gangi þegar (Forseti hringir.) að borði og taki upp viðræður um nýjan samning. Það kann vel að vera að hv. þingmaður búi yfir einhverri sérstakri vitneskju um þessi mál, en ég tel mjög ólíklegt að svo verði.