148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég svaraði hv. þingmanni með hafrannsóknaskipið áðan. Menn eru farnir að endurtaka sig örlítið. Ég deili sömu skoðun og hv. þingmaður og raunar er ég sömu skoðunar og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra í þessum efnum. Í texta í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir því og lögð áhersla á að þetta verði skoðað núna, hugsanlega með nýsmíði sem tekur u.þ.b. þrjú ár og áætlaður kostnaður við hana er 3,5 milljarðar. Ég vil sömuleiðis skoða möguleika á að leigja skip í staðinn fyrir Bjarna Sæmundsson því að hann er, eins og hv. þingmaður gat um, algjörlega úr sér genginn.

Ég sé ekki ástæðu til að bæta við þau orð sem ég hafði um vinnuna við sáttina í sjávarútveginum með gjaldið. Það er umræða sem við þurfum lengri tíma til að taka. Þegar spurt er um AVS-sjóðinn og Framleiðnisjóðinn bendi ég hv. þingmanni á að það uppi eru áform um það í fjármálaáætluninni, inni í texta, að búa til slíkan sjóð þannig að hugsanir okkar og hugmyndir í þeim efnum fara saman.

Með sama hætti segi ég um matvælastefnuna að það verk er hafið. Það er í gangi. Ég vænti þess að geta kynnt þá stefnu á næsta ári, komið fram með hana þá. Hún er í undirbúningi núna og vonandi koma fréttir af henni þegar líður á árið.