148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég fagna því sérstaklega og mun styðja ráðherra í því að ýta áfram öflugri matvælastefnu fyrir Ísland um leið og ég vil líka halda honum við efnið varðandi einn öflugan matvælasjóð, þ.e. sameiningu sjóða. Ég er sannfærð um að við getum fengið mikinn kraft út úr slíkri sameiningu.

Hitt er síðan að ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með það stefnuleysi sem birtist í svörum ráðherra þegar við komum að því að reyna að ná sátt og þverpólitískri vinnu þegar kemur að ákvörðun um auðlindagjald í sjávarútvegi. Ég skil hins vegar hæstv. ráðherra vel. Þetta er það stórt mál að það er erfitt að ræða það á einni eða tveimur mínútum og sýnir í raun gallann á fyrirkomulaginu hér. Um leið og ég segi: Gott og vel, við ræðum þetta ekki núna, verðum við einfaldlega að taka sérstaka umræðu um þetta mál og hugsanlega í ljósi mikilvægis þess að krefjast tvöfaldrar umræðu um það. Þetta þing getur ekki látið það (Forseti hringir.) fara frá sér núna í vor án þess að vera með einhverja sýn til framtíðar um hvernig við ætlum að setja niður sanngjarnt auðlindagjald í sjávarútvegi.