148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki svo gott að sá sem hér stendur ráði fjárlögum íslenska ríkisins, ekki einu sinni fjárlagafrumvarpinu eða fjármálaáætluninni. En ég vildi samt vekja athygli hv. þingmanns á hvar aukningin er þegar kemur að utanríkismálum. Hún er fyrst og fremst í þróunarsamvinnunni. Við erum í þessari áætlun að tala um aukningu á milli ára á fyrsta ári áætlunar til þess síðasta um tæplega 3 þús. milljónir á ári. Það er ekki lítil aukning. Þarna erum við að nálgast hratt meðaltal OECD-ríkjanna.

Auðvitað er hægt að gera betur í öllum málaflokkum en mér finnst nú að menn eigi að gæta sanngirni þegar menn sjá hvað hér er um að ræða gríðarlega mikla aukningu. Okkar þróunarsamvinna hefur verið tekin út af DAC, sem er sú stofnun sem fylgist með þessum málum, og hún hefur fengið góða einkunn. Það er mikilvægt að við höldum áfram á þeirri braut. Það komu athugasemdir þar fram sem við erum að reyna að mæta. Það er afskaplega mikilvægt að við förum vel með þessa fjármuni og sérstaklega þessa aukningu.

En bara svo þetta sé sett fram í hlutföllum er aukningin um 55% í þessum málaflokki. Það er mér til efs að það séu aðrir málaflokkar sem hækka jafn mikið, bæði hlutfallslega og jafnvel í upphæðum. Það væru þá helst í heilbrigðismálum sem hafa hækkað á undanförnum árum en þetta hefur farið, ef ég man rétt, úr um 3 þús. milljónum fyrir nokkrum árum í þessar upphæðir sem við erum að sjá núna. Það er auðvitað gríðarlega mikil aukning.