148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hér er hugað að endurbótum. Við höfum undirgengist samninga og markmið sem við höfum reynt að fylgja eftir en ekki gengið betur en þetta. Við lifum á góðæristímum. Hver ráðherrann á fætur öðrum kom upp í umræðunni bæði í dag og í gær og lofaði og prísaði gott árferði til lands og sjávar. Ég held jafnvel að einhver met hafi verið nefnd, heimsmet eða Evrópumet, en þau met eru ekki slegin hvað varðar þróunaraðstoð, í því að rétta hungruðum og þjáðum eilitla lífsbjörg sem skipt getur sköpum. Þar eigum við að taka vel á og betur en við gerum. Við sláum kannski heimsmet í nánasarskap miðað við þjóðarhag.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra hvort honum finnist þessi markmið duga miðað við þær aðstæður sem við búum við, þessi litla, auðuga og öfluga þjóð. Fulltrúar íslenskra hjálparsamtaka kalla eftir liðsinni, að við höldum áfram að auka framlög okkar. Það eru uppi viðsjár. Bent er á að á næstu áratugum geti fjölgað um allt að 180 milljónir flóttamanna af nýjum toga, ef svo má segja, svokallaðir umhverfisflóttamenn, þ.e. flóttafólk sem flýr heimasvæði sitt vegna loftslagsbreytinga sem eru að eiga sér stað, og við munum sjá í sjálfsagt ýktara formi þegar fram líða stundir.

Þarna erum við samábyrg, neyslusamfélög Vesturlanda, og ég leyfi mér að spyrja ráðherrann hvort við höfum með einhverjum hætti tekið þetta inn í okkar stóru jöfnu.