148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa fínu ræðu sem var á býsna hröðum snúningi. En ég held að við höfum náð flestu sem ráðherrann sagði. Kaflinn um utanríkismál í þessari fjármálaáætlun er að mörgu leyti ágætur. Framlög hækka nokkuð mikið en mér sýnist að það séu fyrst og fremst hækkanir vegna skuldbindinga sem Ísland hefur tekið á sig. Mér sýnist ekki mikil hækkun í almennri þjónustu ráðuneytisins og er ég örlítið hissa á því. Ég hefði viljað sjá hækkun þar vegna þess að meiri eftirspurn er eftir þjónustunni en oft áður eins og kemur reyndar fram í fjármálaáætluninni.

Ég er með nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra. Fyrsta spurningin sem mig langar að kasta fram er: Hér er talað um framboð til UNESCO. Hvað kostar slíkt framboð? Hefur það verið kortlagt? Hvað kostar að bjóða sig fram til stjórnarsetu í UNESCO? Það kann að vera að það kosti ekki neitt en það getur líka kostað ákveðna fjármuni. Það kemur ekki fram í þessari áætlun hverjir þeir eru.

Aukin áhersla er lögð á varnarmál sem ég fagna. Ég fagna því mjög að ráðherra leggi aukna áherslu á varnarmál í sinni ráðherratíð. Mér sýnist kominn vísir að varnarmálastofnun inni í ráðuneytinu. Ég velti fyrir mér hvort aukinn kostnaður sé af þeim breytingum. Það þarf ekki að vera en mig langar að forvitnast um það.

Það er talað um viðskipti og þær miklu breytingar sem eru í heiminum varðandi þau í þessari áætlun. Ég sé hins vegar ekki að neinir peningar eða fjármunir séu merktir sérstaklega til að styrkja viðskiptaþáttinn.

Hér er talað um Brexit, eins og gera má ráð fyrir. Þar er talað um að hafa sama aðgang að breska markaðnum og við höfum í dag. Þarna hefði ég viljað sjá aðeins meiri metnað. Það að gera samning við Evrópusambandið er svona ákveðinn tappi. Við eigum að geta sótt meira fram þegar við erum að semja við Breta. Ég veit að ráðherra hefur mikinn áhuga á að gera góðan samning þar.

Síðan aðeins varðandi þróunarsamvinnuna: Þar er talað um mikla aukningu frá 2016 til loka árs 2022. Ég velti fyrir mér hvort sú aukning er á sömu sviðum, þ.e. flóttamenn og hælisleitendur, eða hvort hún sé í tvíhliða þróunarsamvinnu. Það er ágætt ef hægt (Forseti hringir.) er að fá þetta fram því að það skiptir svolitlu máli hvernig og hvar aukningin er, að hún sé ekki bara sjálfvirk heldur séum við að leggja sérstaklega mikið til málanna.