148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið. Sú skýrsla sem ráðherra vitnaði hér í er að mörgu leyti mjög góð. Það var alveg tímabært að ráðherra fór í þá vinnu að fara yfir utanríkisþjónustuna og horfa til framtíðar með hana.

Það er hins vegar alveg rétt að í þessari skýrslu er fyrst og fremst horft til hagræðingar og tilfærslna innan þjónustunnar. Ég held hins vegar að við séum á þeim stað í dag að við getum ekki eingöngu náð þeim árangri sem við ætlum að ná með þeim hætti. Þess vegna nefndi ég hér áðan að ég hefði viljað sjá örlitla hækkun til þjónustunnar. Látum það bíða betri tíma.

Varðandi þróunarsamvinnuna velti ég því fyrir mér hvort þessum markmiðum, um 0,35%, verði náð með þessum mælingum sem við notum í dag, þ.e. í gegnum hælisleitendur og flóttamenn, eða hvort við erum að bæta við fjármunum í tvíhliða þróunarsamvinnu. Þessi aukning er töluverð.

Mig langar líka að koma aðeins inn á EES-samninginn. Það kemur fram í þessari áætlun að hann sé mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands, það má alveg færa rök fyrir því. Hins vegar er breyting að verða á honum, þ.e. Bretar eru að fara út úr Evrópusambandinu eins og allir vita. Ég velti því upp og spyr ráðherra hvort hann sé ekki sammála mörgum okkar um að full ástæða sé til þess að yfirfara EES-samninginn, kanna kosti og galla og meta stöðuna í dag.

Það kemur fram á bls. 170, sem er að sjálfsögðu rétt, að Ísland er að fjármagna ákveðin verkefni innan Evrópusambandsins vegna EES-samningsins, gegnum þróunarsjóði. Það hefur stundum verið sagt að Ísland sé að styrkja Evrópusambandið, Ísland sé að hjálpa Evrópusambandinu með þróunaraðstoð til þess. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvaða hug hann beri til þeirra styrkja sem við erum með þarna til Evrópusambandsins.

Síðan er ein spurning í lokin, þetta er allt of lítill tími í svona stórt og gott mál: Í áætlunargerð er gert ráð fyrir fjölgun gistirýma á varnarsvæðinu úr 200 í 400 á tímabilinu. Ég er að velta fyrir mér: Til hvers? Erum við að fara í einhver hótel þarna?