148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:02]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er vissulega margt gott og til fyrirmyndar í fjármálaáætlun er varðar utanríkismál, til að mynda aukið vægi á auðlinda- og umhverfismál í utanríkismálum og verkefni á alþjóðavísu er varðar loftslagsbreytingar og Ísland hefur undirgengist. Þegar við erum að tala um gríðarlega mikla aukningu fjármuna í ákveðna málaflokka sem heyra undir utanríkismál langar mig samt til að halda því til haga að aukningin hér frá fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar er tæpar 400 milljónir alls yfir fimm ára tímabil. Ég hnýt um atriði eins og verulega beina aukningu á fjármunum og mikla hlutfallsaukningu á framlagi Íslands innan NATO til að tryggja varnir Íslands sem þarfnast sérstakrar umræðu í þinginu, herra forseti.

Svo get ég ekki heldur staðist þá freistingu að tala um þá ákvörðun að styrkja ekki sendiskrifstofu Íslands við Evrópuráðsþingið í Strassborg sem þýðir að við erum eina þjóðin af 47 sem eiga sæti í Evrópuráðsþinginu sem ekki er með sendiskrifstofu þar, ólíkt því sem var fyrir hrun og ákveðið var að endurvekja 2016. Það eru vissulega vonbrigði, enda Ísland með formennsku í Evrópuráðinu árið 2021. Það þarf ekki að ítreka fyrir hæstv. ráðherra hversu mikilvægar grundvallarstoðir Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið eru á sviði mannréttinda, laga og lýðræðis.

Stofnanir Evrópuráðsins, þar með talin ráðherranefndin, Evrópuráðsþingið og Mannréttindadómstóll Evrópu, eru mikilvægustu mannréttindastofnanir álfunnar og viðvera okkar í Strassborg skiptir þar höfuðmáli.

Ég ætla að nýta tímann vel og vonast til að hæstv. ráðherra geti upplýst mig um tvö aðskilin atriði. Á bls. 162 í fjármálaáætluninni segir, með leyfi forseta:

„Eitt mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnvalda þessi misserin er að búa í haginn fyrir viðræður um framtíðarskipan samskipta Íslands við Bretland“ í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Hversu miklum fjármunum á að verja í þetta mikilvæga verkefni, eitt af mikilvægustu verkefnum íslenskra stjórnvalda þessi misserin? Þær tölur koma ekki fram hér, virðulegi forseti.