148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:06]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hefði þó gjarnan viljað sjá í fjármálaáætluninni fyrir næstu fimm árin þá fjármuni sem á að verja í þetta mikilvæga verkefni, en það er ágætt að vita að það kemur þá fram á morgun í umræðum í þinginu.

Hitt aðskilda málið sem ég vildi nefna hér er þróunarsamvinnan. Það er vissulega mjög jákvætt að loksins sé áætlað að framlag Íslands til þróunarsamvinnu skuli hækka næstu árin, enda ekki seinna vænna eftir mögur ár. Ég fagna því og ég fagna þeim áherslum í þróunarsamvinnu Íslands sem snúast um að valdefla konur og stúlkur í þróunarríkjum og efla aðgang að menntun. Ég hefði að sjálfsögðu gjarnan viljað sjá enn metnaðarfyllri markmið í framlögum Íslands til þróunarsamvinnu og að við stæðum nú loks við loforð okkar um að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um að veita 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu og þar með skipa okkur við hlið þeirra landa sem við miðum okkur alla jafna við. Það væri gott að fá að vita hvers vegna framlögin voru ekki hækkuð meira en það sem fram kemur hér.

Ég get heldur ekki betur séð en að hér komi fram sömu áherslur og í síðustu ríkisstjórn sem er að veita hluta af framlögum til þróunarsamvinnu í aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur hér innan lands. Það að þeir fjármunir séu hluti af opinberri þróunaraðstoð Íslands á erlendri grundu fellur ekki undir almenna skilgreiningu á þróunarsamvinnu og er alls ekki í samræmi við markmið Íslands í þróunarsamvinnu.

Ef þetta er rétt vekur það furðu mína því að málefni flóttafólks og hælisleitenda falla undir verkefnasvið velferðar- og innanríkisráðuneytisins og þar má alveg auka við fjármuni í þeim málaflokki en ekki taka það af fjármunum í þróunarsamvinnu.

Ég óska eftir skýringum hæstv. utanríkisráðherra á þessu og bið hann að auki að skýra enn betur fyrir okkur hér hvað það þýði á bls. 175 að aukið vægi verði lagt á viðskiptamál í starfinu fram undan þegar kemur að þróunarsamvinnu.