148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara vekja athygli á því að það er mjög mikil hækkun á þessu tímabili þegar kemur að þróunarmálum. Þetta eru gríðarlega stórar upphæðir. Árið 2023 erum við komin í 8.300 milljónir. Ef menn ætluðu að tvöfalda þá upphæð eru það gríðarlegir fjármunir sem menn þurfa þá a.m.k. að segja hvaðan þeir ætla að taka. Ég held að það sé sátt um að gera vel í þróunarmálum, en það er kannski svolítið annað þegar kemur að því hvaðan menn ætla að taka féð. Það skiptir líka máli að nýta þessa fjármuni vel og það að fara mjög bratt í slíka hækkun gerir málið vandasamt.

Þegar kemur að uppgjöri miðum við bara við sömu reglur og aðrar þjóðir. Það er tekið tillit til hælisleitenda og flóttamanna þegar kemur upp (Gripið fram í.) — jú, jú, jú, það er gert og við bara fylgjum Norðurlöndunum hvað það varðar. Ég þekki það alveg prýðilega, búinn að fara yfir það. Hver og einn getur kynnt sér það. Við erum ekkert að búa til okkar eigin reglur, við erum bara að fara yfir þessar alþjóðlegu reglur og miða við þær. Hvað annað? Hvernig eigum við að geta borið okkur saman við aðrar þjóðir ef við ætlum að hafa einhver önnur reikningsuppgjör en þær þegar kemur að opinberum fjármálum? Því skyldum við gera það? Menn geta deilt um hvort það á að hækka eða lækka, en ég held að það væri vægast sagt óskynsamlegt að gera hlutina upp með öðrum hætti en aðrar þjóðir. Við getum deilt um upphæðir og annað slíkt, en við skulum gera þetta eins upp.

Varðandi áhersluna á viðskiptamálin, virðulegi forseti, skulum við miða við Ísland. Af hverju erum við á þeim stað sem við erum á? Það er vegna þess að við höfum aðgang að öðrum mörkuðum. Nákvæmlega hið sama á við um þessar þjóðir. Þess vegna eru líka athugasemdirnar við það sem kemur fram í DAC-skýrslunni, að við getum ekki gert þetta ein, þ.e. opinberu aðilar, ef við ætlum að ná heimsmarkmiðum og ef við ætlum að hjálpa þessum þjóðum. Atvinnulífið verður að koma með í það.

Við erum ekki að gera neitt annað en að læra af þeim þjóðum sem menn segja að við eigum að læra af. Þá vísa ég sérstaklega til Norðurlandanna, en það eru að sjálfsögðu til fleiri þjóðir sem er hægt að vísa til. Við ætlum ekki að finna upp neitt hjól í þessu. (Forseti hringir.) Við ætlum að læra af þeim sem hafa gert þetta lengur og sett í það meiri fjármuni.