148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvern hv. þingmaður er að hlusta á, hvaða sögur. Ég mælist til þess að hann spyrji þann sem hér er ef hann er að heyra einhverjar sögur — það er ekkert leyndarmál hvað er í gangi hér — og hætti að hlusta á sögur úti í bæ frá einhverjum snillingum.

Þetta er einfaldlega svona: Bretland er næstmikilvægasti markaðurinn okkar. Bandaríkin eru langmikilvægasti markaðurinn og Bretland næstmikilvægasti. Við gætum hagsmuna okkar þar. Það útilokar ekki aðra hagsmunagæslu. Í þessari skýrslu sem eftir því sem ég best veit er búið að dreifa til hv. þingmanna, um skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins, er farið yfir þessar áætlanir, sem hv. þingmaður vísaði réttilega í, varðandi hagsmunagæslu út af EES.

Stutta sagan er þessi: Við vorum ekki í vanda hvað varðar innleiðingarmálin lengst framan af og ekki fyrr en við fórum að reyna að ganga í ESB. Þá var það kerfi í raun tekið niður, við getum sagt það, sem snýr að því að fulltrúar fagráðuneytanna voru í Brussel, og ekki var jafn mikil áhersla lögð á EES-samninginn. Eftir það fór innleiðingarhallinn upp og færa má rök fyrir því að við hefðum getað sinnt hagsmunagæslunni betur en við höfum gert. Einfaldasta myndin er að segja að við séum að fara til baka hvað þetta varðar.

Kostnaðurinn er náttúrlega mikill, alla vega á mælikvarða utanríkisþjónustunnar. Það snýr ekki bara að því að við séum að fá fleiri aðila að utanríkisþjónustunni til að gera þetta, heldur erum við að gera það sem er algjörlega nauðsynlegt til að fá fagráðuneytin inn í Brussel-sendiráðið til að fylgjast með því sem þar gerist. Við erum sérstaklega að leggja áherslu á það að reyna að hafa áhrif á mál á fyrstu stigum.

Ég á svolítið erfitt með að fara í gegnum skýrsluna á þessum tveimur mínútum, en henni hefur verið dreift til þingmanna til þess meðal annars að við getum rætt hana á morgun.