148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara biðja hv. þingmann velvirðingar. Eftir að hafa hlustað á seinna andsvarið fer ekkert á milli mála að engin ástæða var fyrir mig til að vera eitthvað að pirrast út í hv. þingmann. Ég vona að hann virði það við mig að ég bið hann velvirðingar á því.

Það er búið að leggja mikla vinnu í þær tillögur sem raktar eru í þessari skýrslu. Þetta tengist líka, eins og hv. þingmaður er búinn að kynna sér, utanríkisþjónustu til framtíðar. Við lögðum sömuleiðis áherslu á að styrkja hagsmunagæsluna hvað varðar EES-samninginn.

Er þetta nóg? Hvenær er nóg nóg? Ég veit það ekki, virðulegi forseti. Mér finnst þetta alla vega vera vel ígrundaðar og skynsamlegar tillögur. Að vísu er búið að fara í ýmis átaksverkefni sem snúa að innleiðingunni. Mér finnst hins vegar að gera þurfi meira en það. Lagt er upp með það en gert er ráð fyrir því í EES-samningnum að við getum haft áhrif á það á fyrstu stigum þegar hvítbækurnar koma fram. Ég vil trúa því og treysta.

Þetta er náttúrlega umtalsverð breyting á þessu sviði þegar við erum búin að framkvæmda þessa hluti. Við skulum alla vega gefa því einhvern tíma og sjá hvernig það gengur. En síðan er það þannig að allir þessir hlutir eru í þróun. Við munum ekki geta stýrt öllu þessu umhverfi. Ég segi bara í stuttu máli að mér finnst það fólk sem að þessu máli hefur komið hafa unnið góða vinnu varðandi þessar tillögur. Það er ánægjulegt og það er einhugur og samstaða um það í ríkisstjórninni.

En það er hins vegar líka þannig, ég heyri það, almennt í þinginu. Hins vegar vil ég hvetja til þess að við séum mjög vel vakandi og ekki bara framkvæmdarvaldið heldur líka þingið þegar kemur að EES-málum og reyndar öðrum hagsmunamálum okkar. Það eru bæði tækifæri og ógnanir á alþjóðavettvangi og ekki síst í viðskiptamálunum. En þegar þú spyrð ráðherra: Ertu með nóg? Það er bara hættuleg spurning. Ef hv. þingmaður verður einhvern tímann fjármálaráðherra þá mun hann aldrei spyrja fagráðherra að þeirri spurningu. (Gripið fram í.)