148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:20]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Fyrst langar mig að segja að mér þykir þetta samtal við fagráðherra um fjármálaáætlun vera afar góð leið til að nálgast umræðuefnið með faglegum hætti. Í þessari stuttu ræðu minni nú langar mig að ræða sérstaklega um þróunarsamvinnu og útgjöld til verkefna sem þar falla undir. Þróunarsamvinna er einn af þeim fimm málaflokkum sem falla undir málefnasvið utanríkisráðuneytisins.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Utanríkisstefna Íslands byggist á skýrum viðmiðum um lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, sjálfbæra þróun og friðsamlegar lausnir. Ríkisstjórnin ætlar að auka framlög til þróunarsamvinnu á næstu árum og stefnir að því að þau verði 0,35% af landsframleiðslu eftir fimm ár.“

Á bls. 160 í framlagðri þingsályktunartillögu ríkisstjórnar um fjármálaáætlun fyrir 2019–2023 kemur fram að meginverkefni málaflokksins sé tvíhliða og fjölþjóðleg þróunarsamvinna í samstarfi við valin samstarfslönd og svæði, fjölþjóðastofnanir og borgarasamtök. Verkefnum er sinnt af þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins, tveimur sendiskrifstofum í Afríku, í Malaví og Úganda, og fastanefndum Íslands í New York, Genf, París og Róm.

Á sömu blaðsíðu kemur einnig fram að framlög til utanríkisráðuneytisins á fjárlögum fyrir árið 2018 nemi samtals tæplega 15 milljörðum kr., um 1,8% af A-hluta fjárlaga. Þar af rennur u.þ.b. bil helmingur, tæpir 7 milljarðar, til þróunarsamvinnu og alþjóðastofnana.

Tíminn er fljótur að líða og ég ætla að koma mér að spurningunum. Á bls. 163 kemur fram að ríkisstjórnin stefni að því að framlög til þróunarsamvinnu verði 0,35% af vergum þjóðartekjum árið 2022. Að þessu sögðu langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra, miðað við þessa þróun, hvort og þá hvenær hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að við Íslendingar náum því markmiði Sameinuðu þjóðanna (Forseti hringir.) að veita 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnumála. Telur ráðherra það vera raunhæft markmið?