148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:25]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir afar greinargóð svör. Ég ætla að nefna annað atriði úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um alþjóðamál en þar kemur fram að áhersla verði lögð á norrænt samstarf og að það samstarf sé í raun einn af hornsteinum í utanríkisstefnu Íslands. Breytingar og ákveðin óvissa á alþjóðavettvangi hafa leitt til þess að Norðurlöndin sjá aukinn ávinning í áframhaldandi nánu samstarfi, til að mynda um loftslagsmál, rannsóknir á ýmsum sviðum, hvernig nýta eigi stafræna tækni og ýmislegt fleira.

Sú sem hér stendur tók þátt í vorþingi Norðurlandaráðs sem fram fór á Akureyri fyrr í þessari viku. Forsætisnefnd samþykkti tillögu um netöryggismál á þeim fundi. Í skýringum við tillöguna segir m.a., með leyfi forseta:

„Samstarf um netvarnir hefur farið fram í nokkur ár innan ramma NORDEFCO.“ — Það er varnarsamstarf Norðurlandanna. — „Á undanförnum árum hafa norrænu löndin byggt upp netöryggissveitir (Computer Emergency Response Team (CERT)). Tilgangur þeirra er að fyrirbyggja og takast á við netárásir í löndunum. Nú orðið standa þessar sveitir fyrir sameiginlegum námskeiðum og æfingum og skiptast á ástandsskýrslum um ógnir og hættur í netumhverfi á norrænum vettvangi. Með auknu samstarfi geta löndin eflt sameiginlega getu sína til að takast á við ógnir og hættur í netumhverfi.“

Hæstv. forseti. Samkvæmt framlagðri fjármálaáætlun er hlutfall til samstarfs um öryggis- og varnarmál af fjárheimildum utanríkisráðuneytisins í fjárlögum 2018 17% og í töflu á bls. 161 sést að umtalsverð aukning hefur verið til þessa málaflokks frá árinu 2016.

Mig langar því til að spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Sér ráðherra fyrir sér að auka frekar framlög til öryggis- og varnarmála? Ég get ekki séð neinar upplýsingar um það í fjármálaáætlun, aðeins þróunina frá 2016–2018.

2. Mun ráðherra beita sér fyrir því að aukin áhersla verði lögð á netöryggismál?

3. Síðast en ekki síst: (Forseti hringir.) Telur ráðherra að það yrði okkur hér á Íslandi til hagsbóta að vinna nánar með Norðurlöndunum á vettvangi netöryggismála?