148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott innlegg og góðar fyrirspurnir. Fyrst þakka ég hv. þingmanni fyrir að hafa haft frumkvæði að þessari skýrslubeiðni til mín. Ég held að það sé góður tímapunktur til að fara yfir kosti og galla EES. Ég held að vísu að niðurstaðan verði alltaf sú, án þess að ég ætli að skrifa niðurstöðu skýrslunnar, ég ætla ekki að gera það, að augljóslega er þetta gríðarlega mikilvægur samningur. En eins og hv. þingmaður sagði, sem er alveg hárrétt, þá skiptir máli af því að hlutirnir breytast að þau tæki sem við eigum í samningnum til að gæta hagsmuna okkar séu fullnýtt. Ég held að það væri gott ef skýrslan innihéldi það hvernig við höfum gert það fram til þessa og síðan hvernig þróun mála hefur verið almennt. Þetta er gríðarlega stórt mál sem er mikilvægt að allir séu meðvitaðir um, kosti og galla, og þing og þjóð geti þá tekið afstöðu til þess varðandi ákvörðunartöku, framhald og annað slíkt.

Ég held að hv. þingmaður hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að þetta yrði grundvöllur fyrir málefnalegri umræðu því að það vantar svo staðreyndir, það eru alls konar bábiljur uppi og skiptir máli að koma staðreyndunum fram og ræða málin út frá þeim.

Varnarsamningur við Bandaríkin sem og aðildin að Atlantshafsbandalaginu er afskaplega mikilvægur þegar kemur að öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar. Samskipti okkar við Bandaríkin eiga sér langa sögu og í það heila eru þau mjög góð. Þau hafa ekkert breyst. Það hefur orðið mikil umræða í kjölfar breytinga í ríkisstjórn Bandaríkjanna og menn telja að hlutirnir hafi breyst eitthvað í grundvallaratriðum en það er ekki. Sambandið byggir á miklu dýpri rótum en svo að það breytist mikið við það að valdhafar komi og fari. Sem betur fer eru samskiptin góð. Í næsta svari kem ég kannski betur að því.