148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er tvennt sem ég vil koma inn á, í fyrsta lagi þróunarsamvinnu, bara rétt aðeins. Hvað sem ráðherra segir og hvernig sem maður rýnir í gögnin er þróunarsamvinnan að aukast sem er jákvætt. En hún eykst eingöngu vegna skuldbindinga sem við Íslendingar höfum undirgengist.

Af þeim orðaskiptum sem voru hér áðan og þegar maður les í gegnum gamlar þingræður líka finnst mér nokkuð ljóst að sýn Vinstri grænna og forsætisráðherra þar með á þróunarsamvinnu í bland við viðskipti sé greinilega önnur en hæstv. ráðherra. Það er dregið fram í áætluninni að viðskiptamál eigi að fá aukið vægi í þróunarsamvinnu. Hvað þýðir það nákvæmlega? Samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum er ekki verið að setja viðskipti inn í þróunarsamvinnu. Ég vil bara fá að vita: Er hæstv. ráðherra með fullan stuðning Vinstri grænna og forsætisráðherra í þessu máli, að auka vægi viðskipta í þróunarsamvinnu? Það verður fróðlegt að heyra það.

Síðan er hitt, sem skiptir líka gríðarlega miklu máli og er erfitt að taka hér fram á einni mínútu: Ég fagna því að framkvæmd EES-samningsins, þessa mikilvægasta viðskiptasamnings sem við Íslendingar höfum undirgengist, eins og segir í fjármálaáætluninni, sé öflugri. Nú berast til eyrna raddir, m.a. innan úr Sjálfstæðisflokknum, sem draga mjög í efa gildi EES-samningsins, þessa mikilvægasta viðskiptasamnings, og lýsa meðal annars yfir miklum efasemdum um hinn svonefnda þriðja orkupakka EES. Er ráðherra þá sammála því sem kemur frá Sjálfstæðisflokknum, að á einhverju stigi hafi hagsmunagæslunni ekki verið sinnt af hálfu utanríkisþjónustunnar og eftir atvikum iðnaðarráðuneytisins, sem rétt er að nefna að hefur verið undir forystu Sjálfstæðisflokksins síðustu ár? Var þessari hagsmunagæslu ekki sinnt á einhverju stigi og er þá verið að reyna (Forseti hringir.) að styrkja þessa hagsmunagæslu, m.a. út af þessu? Og hvar eru fjármunirnir sem fara í aukna hagsmunagæslu? Það er ljóst að við þurfum að setja meira í þennan mikilvægasta viðskiptasamning sem Ísland hefur undirgengist.