148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það eru engar alþjóðlegar skuldbindingar sem gera það að verkum að við erum að hækka framlög til þróunarmálanna, það er bara stefna ríkisstjórnarinnar. Varðandi viðskiptamálin og atvinnumálin almennt er ekkert leyndarmál að þróunarríkin hafa kallað eftir því að hafa aukinn aðgang að öðrum mörkuðum. Ef hv. þingmaður fylgist með því hvað þróunarríkin hafa verið að segja er það í raun alveg það sama og við sögðum á sínum tíma og gerum enn, við vildum hafa aðgang að öðrum mörkuðum. Síðan er vísað hér til athugasemda sem koma í dagsskýrslu þar sem bent er á að við þurfum að vera með atvinnulífið með okkur þegar við erum að byggja þessar þjóðir upp. Það er nákvæmlega það sama og hefur gerst í hinum vestræna heimi. Það þarf ekki að koma neinum á óvart.

Varðandi öflugri framkvæmd EES-samningsins held ég að mestu ógnirnar sem steðji að EES-samningnum séu annars vegar það að ESB hefur grafið undan honum með því að leggja ekki áherslu á tveggja stoða kerfi sem er byggt upp í EES-samningnum. Í það minnsta hefur verið erfitt að eiga við, eins og hæstv. fjármálaráðherra fór hér yfir, ESB hvað þetta varðar. Það er bara ekki í samræmi við EES-samninginn. Síðan er hin ógnin, að ESB-sinnar, bæði á Íslandi og í Noregi, hafa verið að tala samninginn niður. Það er mjög vont. (ÞKG: Ertu ekki að grínast?) Við sjáum (Gripið fram í.) rangfærslurnar sem koma fram hjá hv. þingmönnum Viðreisnar, t.d. um að 90% af gerðum Evrópusambandsins séu tekin upp í EES-samninginn. Það er kolrangt, það eru 13,4%. Þetta er lagt fram með þessum hætti til að reyna að koma því á kreik að þetta sé kolómögulegur samningur og að við verðum að ganga í Evrópusambandið til að hafa einhver áhrif á þessu svæði.

Þetta eru helstu ógnirnar varðandi EES-samninginn, tregða Evrópusambandsins (Forseti hringir.) til að byggja á tveggja stoða kerfinu sem lagt er upp með og þegar ESB-sinnar á Íslandi og í Noregi eru að grafa undan EES-samningnum eins og við þekkjum á undanförnum árum og áratugum. (ÞorstV: Hver er að grafa undan EES-samningnum?)