148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er nú meira hvernig hægt er að snúa málum á hvolf. Ég er hins vegar fegin að heyra að nú er utanríkisráðherra staffírugur hér og ætlar að berjast fyrir EES-samningnum. Þá vona ég að hann fari, keikur eins og hann er í þessum ræðustóli, beint heim í Valhöll og tali nákvæmlega svona á fundi atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins sem var bara í vikunni að vara sérstaklega við afsali á grundvelli samningsins. Ég spyr enn og aftur vegna þess að ég fékk ekkert svar: Hvar á vaktinni klikkuðu Sjálfstæðismenn? Við erum að tala um orkupakkann. Við fórum mjög vel yfir þetta í utanríkismálanefnd í gær. Auðvitað eru allir með varann á sér. Er eitthvað að gerast sem við erum búin að missa af? Nei, utanríkisþjónustan hefur að mínu mati staðið sig ágætlega en eftir því sem Sjálfstæðismenn segja, og á þeirra fundum, hefur hagsmunagæslan klikkað einhvers staðar. Og hverjir áttu að standa vaktina? Sjálfstæðismenn í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, nú atvinnuvegaráðuneytinu, og síðan utanríkisráðherra sjálfur. Það er enginn annar, það er pólitísk ábyrgð. Gjörið þá svo vel að standa undir henni.

Ég vil styðja ráðherra í því að passa upp á að markmið EES-samningsins haldi sér. Það er alveg makalaust að hlusta á þetta hér, alveg hreint með ólíkindum.

Ég er sannfærð um að hvert einasta skref sem Ísland hefur stigið á grundvelli NATO-samstarfs, EFTA-samningsins, EES-samningsins — já, af því að þetta er svo mikið hagsmunamál — hafi styrkt fullveldi Íslands en ekki veikt það. Raddirnar innan Sjálfstæðisflokksins, efasemdaraddirnar, íhaldsraddirnar, eru að ná tökum á þessum flokki sem hefur þó haft það í sinni sögu að hafa stigið þessi mikilvægu skref í viðskipta- og utanríkissögu Íslands. Mér finnst vont að finna þessa þróun hjá flokknum sem hefur þó í gegnum tíðina staðið vaktina þokkalega, en það er allt (Forseti hringir.) að molna undan honum á þessu sviði miðað við það sem hæstv. ráðherra segir. Ég sakna þess að fá ekki afgerandi svör um þróunarsamvinnuna, um það hvort ráðherra hafi fullan stuðning Vinstri grænna til þessarar túlkunar á þróunarsamvinnu og viðskiptum. Ég vil fá skýr svör um það.

(Forseti (GBr): Forseti biður þingmenn um að virða tímamörk.)