148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við getum ekki gert tvíhliða samninga við ríki Evrópusambandsins, a.m.k. ekki þegar kemur að viðskiptamálum, vegna þess að þau eru með sameiginlega viðskiptastefnu. Bara svo ég haldi áfram hvað það varðar erum við með 90% tollfrelsi með nokkurn veginn sömu tollnúmer. Það eru 26% tollfrelsi af þeim. Þess vegna myndu vörurnar hækka hjá íslenskum neytendum ef við gengjum þarna inn.

Ég spyr bara: Í hvaða landi Evrópusambandsins telja menn sig hafa áhrif á ákvarðanir? Hvar? Við tölum um lýðræðishalla af því að við yfirtökum 13% frá EES og við kvörtum undan því að Evrópusambandið virði ekki samninginn þegar kemur að því að byggja upp tveggja stoða lausnir eins og talað var um. Það er það sem við erum að tala um. En hvernig heldurðu að við þetta væri ef við værum með allt saman undir og hefðum fimm þingmenn af 755 eða hvað það er? Evrópuþingið er ekkert venjulegt þing. Viðkomandi þingmaður getur ekki einu sinni flutt frumvarp. (Forseti hringir.) Ég hef ekki tíma til að fara yfir það, en ef hv. þingmaður telur að við hér stýrðum því sem gerist í Evrópusambandinu ef við gengjum inn í það er hv. þingmaður bjartsýnn. Mér finnst gott (Forseti hringir.) að vera bjartsýnn en það hljóta að vera einhver takmörk.