148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er gott að menn kenna mönnum hógværð. Það var kannski kominn tími á það og það er gott að hafa lítilláta þingmenn í salnum. Þegar ég tala um að hv. þingmenn tali niður EES-samninginn ætla ég bara að spyrja einnar spurningar: Af hverju talið þið eins og við séum að taka nokkurn veginn allar gerðir ESB upp í EES-samninginn? Af hverju eruð þið að því? Þið talið um 75–90%. Af hverju eruð þið að því? Þetta eru hrein ósannindi. Það eru 13,4% frá 1994. Þegar þið talið með þessum hætti eruð þið meðvitað að tala niður samninginn. Hv. þingmaður skal ekki koma hér og kannast ekki við það.

Varðandi einskiptiskostnaðinn þarf að fjölga tollvörðum um nokkur hundruð og það er ekki einskiptiskostnaður. Stóri kostnaðurinn liggur í því, virðulegi forseti, að verð hækkar á vörum til neytenda og fyrirtækja. Í aðlögunarviðræðunum sögðu menn aldrei frá því þó að þeir kæmu að því en þar kemur fram að menn lokuðu ekki kaflanum og vildu fá mótvægisaðgerðir vegna þess að það kom illa við íslenskan atvinnuveg að aðföngin myndu hækka. Frá þessu segja þeir ekki einhverra hluta vegna.

Núna þegar ESB er réttilega að reyna að koma með úrbætur á evrusvæðinu út af innri veikleika þar held ég að þetta sé ekki alveg rétti tíminn til að veifa því plaggi. Við skulum bara byrja á því að sjá hvort þeir nái einhverjum tökum á því.

Ef einhver heldur því í fullri alvöru fram að það sé stöðugleiki í öllum ríkjum ESB hefur viðkomandi einstaklingur ekki aðgang að internetinu, svo mikið er víst.