148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:11]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég geri hér í stuttu máli grein fyrir fjármálaáætlun næstu fimm ára hvað varðar þau fjögur málefnasvið sem undir mig heyra sem ráðherra, þ.e. rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar; ferðaþjónustu; orkumál; markaðseftirlit og neytendamál.

Óhætt er að segja að verið sé að efla öll þessi málefnasvið með beinum eða óbeinum hætti. Ég horfi þá ekki bara á fjárhagshliðina heldur ekki síður á stefnu, markmið og aðgerðir sem hér eru settar fram.

Ábyrgð á málefnasviði 7 er skipt með þremur ráðherrum en sá málaflokkur sem heyrir undir mig er nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar. Hér er sett fram sú framtíðarsýn fyrir málefnasviðið í heild að Ísland verði leiðandi á sviði rannsókna og þekkingar og það markmið að hér verði alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi rannsókna og nýsköpunar.

Meginmarkmið málaflokksins eru í fyrsta lagi aukin útflutningsverðmæti á grunni nýsköpunar, aukin samkeppni og minni reglubyrði. Í öðru lagi aukin hagnýting lausna sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og neikvæðum umhverfisáhrifum. Í þriðja lagi árleg fjölgun starfa í þekkingargreinum.

Eitt mikilvægasta verkefni málaflokksins verður að ráðast í gerð nýsköpunarstefnu fyrir Ísland í samræmi við stjórnarsáttmálann en fjölmörg önnur verkefni eru hér tilgreind.

Eins og þingmenn vita hefur málaflokkurinn fengið stóraukin framlög á undanförnum árum og munar þar langmest um aukin framlög í Tækniþróunarsjóð og hækkun á endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunarverkefna. Þessir tveir þættir hækkuðu um 80% á milli áranna 2015 og 2018. Það er vissulega mikil hækkun en við ætlum að gera enn betur. Í samræmi við stjórnarsáttmálann verða endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar stórauknar frá og með árinu 2020 sem mun nýtast fyrirtækjum vegna verkefna strax á árinu 2019. Gert er ráð fyrir 600 milljónum í fjármálaáætlun hvað þetta varðar.

Í ferðaþjónustu er hér sett fram framtíðarsýn um sjálfbæra atvinnugrein sem er í jafnvægi í efnahagslegu, umhverfislegu og samfélagslegu tilliti. Meginmarkmiðin eru þrjú og lúta einmitt að þessum þremur stoðum sjálfbærni.

Ráðist verður í gerð langtímastefnu um ferðaþjónustu, en aðrar áherslur í verkefnum og aðgerðum eru meðal annars endurskoðun á stjórnkerfi málaflokksins, endurskoðun á fyrirkomulagi rannsókna og greininga, stuðningur við markaðsstofur landshlutanna, stuðningur við uppbyggingu ferðamannastaða, nýjar leiðir í gjaldtöku og skýrara regluverk og aukið eftirlit með skammtímaleigu á húsnæði.

Fjárveitingar til ferðaþjónustu hækkuðu mjög mikið í fjárlögum yfirstandandi árs og er gert ráð fyrir að sú hækkun haldi sér að mestu leyti, nema hvað varðar framlög til flugþróunarsjóðs sem eru tímabundin, sem skýrir að mestu leyti þá lækkun sem áætlunin sýnir árið 2020. Ég geri þó ráð fyrir að fjárveitingar flugþróunarsjóðs flytjist á milli ára ef sjóðurinn nær ekki að ráðstafa þeim.

Í orkumálum setjum við fram þá framtíðarsýn að Ísland sé leiðandi í þróun og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á grunni þekkingar, fagmennsku og sérstöðu og hreinleika umhverfis og orkuauðlinda.

Meginmarkmiðið er aukin samkeppnishæfni orkumarkaðar á grunni hinna þriggja stoða sjálfbærni. Mælanleg markmið sem styðja við framtíðarsýnina og meginmarkmiðið eru fjögur, í fyrsta lagi að jafnvægi framboðs og eftirspurnar á almennum markaði verði tryggt og þar með orkuöryggi heimila og fyrirtækja; í öðru lagi að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa aukist; í þriðja lagi að jafna orkukostnað á landsvísu, bæði vegna dreifingar raforku og húshitunar; í fjórða lagi að lágmarkskröfur um afhendingaröryggi raforku gildi um allt land.

Viðamesta verkefni málefnasviðsins verður gerð langtímaorkustefnu fyrir Ísland. Fjölmörg önnur verkefni og aðgerðir eru nefndar. Ekki er um að ræða verulegar breytingar á útgjöldum til málaflokksins ef frá eru taldar tímabundnar viðbótarfjárveitingar til að mæta þörf fyrir stofnstyrki til hitaveitna vegna lagabreytinga sem lýkur árið 2021.

Framtíðarsýn okkar í málaflokknum markaðseftirlit og neytendamál snýst um skilvirka efnahagsstarfsemi og velferð á grunni stöðugleika, virkrar samkeppni, gegnsæis og heilbrigðra viðskiptahátta.

Markmiðin eru þrenns konar: Í fyrsta lagi aukið gegnsæi, virk samkeppni og heilbrigðir viðskiptahættir í fjármála- og viðskiptalífi samkvæmt fimm skilgreindum mælikvörðum; í öðru lagi aukin umhverfisvitund og úrlausnir á sviði umhverfismála á grunni markaðseftirlits og samkeppni og í þriðja lagi aukið traust almennings til atvinnulífs og markaðseftirlits. Fimm aðgerðir eru tilgreindar til að ná þessum markmiðum.

Ég hlakka til að eiga samtal við þingmenn um framtíðarsýn okkar og markmið varðandi þessi mikilvægu málefnasvið sem undir mig heyra.