148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:18]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Á síðasta ári fékk ráðuneyti ferðamála aukið svigrúm í þau mál. Ég tók þá ákvörðun að ráðstafa hluta af því fjármagni einmitt til þess að efla markaðsstofur landshlutanna þannig að það að segja að það sé verið að skera niður til markaðsstofa landshlutanna er túlkun eða niðurstaða af þeirri vinnu sem við erum í sem ég get ekki fallist á. Ég hef margoft sagt að markaðsstofurnar séu algjör lykilaðili úti um allt land til að efla ferðaþjónustuna, til að vinna að verkefnum úti um landið allt. Þau eru nær sveitarfélögunum og nær íbúunum.

Það er einfaldlega ekki rétt að það sé verið að auka í markaðssetningu erlendis. Við höfum verið með samninga við Íslandsstofu hvað varðar markaðssetningu. Það kemur í ljós í fjárlögum hvernig við skiptum niður fjárhæðum innan málefnasviðsins. Ég er sjálf t.d. á þeirri skoðun að það átak sem farið var í árið 2010 vegna Eyjafjallajökulsgoss hafi verið átak. Það eru ýmis verkefni á borðinu og hvort það eigi áfram að vera með markaðssetningu erlendis í sama mæli er eitt af því sem við erum að fara yfir. Það er ekki þannig að það hafi verið bætt í markaðssetningu erlendis og það er ekki verið að skera niður til markaðsstofanna, heldur er verkefnið einmitt að efla þær.

Sömuleiðis þarf að líta til þess að verkefni eru mismunandi eftir markaðsstofunum. Það er sérstaklega horft til markaðsstofa á þeim svæðum sem hafa einfaldlega ekki notið góðs í sama mæli af þeim fjölda ferðamanna sem hér er.