148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:32]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að skipta mínum fáeinu mínútum í tvo hluta og vera fremur sérhæfður í fyrra innlegginu. Þá ætla ég aðeins að ræða um orkumál og nýsköpun og beina sjónum að mikilvægum þætti í minni losun gróðurhúsalofttegunda sem er innlend eldsneytisframleiðsla. Við vitum öll hvað ég á þá við, ég á auðvitað við vetni, sem er að verða æ vinsælla, metanól, metan og lífdísil, bæði úr landgróðri og þörungum, og tengja þetta svo við nýsköpun.

Áhersla er lögð á aukið fjármagn í ríkisfjármálaáætlun. Ég taldi saman 900 milljónir á fimm ára tímabili í aukningu. Það beinist, samkvæmt sömu áætlun, að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og minnka neikvæð umhverfisáhrif, þannig að auðvitað ætti þetta að spila saman.

Þá er það spurning til hæstv. ráðherra, hvort í ríkisfjármálaáætlun sé nægileg áhersla á að efla þennan eldsneytisiðnað og hver fyrstu skrefin gætu orðið. Þá á ég auðvitað við að efla hann bæði miðað við þá þekkingu sem er fyrir hendi, eins og t.d. metanólframleiðsla, sem er í góðum gír þó hún sé fjarri því að vera næg, en einnig með nýsköpun. Það er af nógu að taka. Þetta er einhver árangursríkasta leiðin, ásamt rafvæðingu bílaflotans, í samgöngum yfir höfuð til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.