148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:38]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Rétt til að svara hv. þingmanni getur pólitíkin líka verið að gæta að þessu hlutleysi, vegna þess að þetta breytist allt mjög hratt. Á einhverjum tímapunkti er ákveðin tæknileg lausn aðalmálið, svo getur það breyst. Það er líka hluti af þeirri sýn.

Hvað varðar rannsóknirnar er það ákvörðun sem ég tók á síðasta ári, þegar við fengum þetta svigrúm í ferðamálin, að það væri algjört forgangsatriði að efla rannsóknir. Við höfum í raun hafist handa við það, en margt er ógert enn þá hvað varðar útfærsluna. Við eigum eftir að forgangsraða, eins og ég segi, hvað varðar fjárlögin í haust. Það er mjög áhugavert að sjá að þegar við setjum fjármagn í rannsóknir og þegar menn byrja að rannsaka þá kemur í ljós að stór hluti af því er í raun viðvarandi. Það kallar þá á fjármagnið til frambúðar. Svo koma upp ný verkefni. Þess vegna hef ég talað um þessa litlu Hafró, ég sé ekkert annað fyrir mér en að það muni stækka og þörf verði fyrir það. Það er ekkert óeðlilegt þegar um er að ræða náttúru og nýtingu á henni.

Hvað varðar önnur verkefni en þá skýrslu sem hér kom fram á föstudaginn í síðustu viku höfum við í stjórnstöð ferðamála sett af stað verkefni sem EFLA verkfræðistofa er meðal annars að vinna með okkur. Sú vinna gengur í mjög stuttu máli út á að við finnum ákveðna sjálfbærnivísa og reynum að finna þolmörk ferðamennsku á Íslandi hvað varðar efnahagslega þáttinn, umhverfislega þáttinn og samfélagslega þáttinn. Ef þetta gengur vel erum við komin með grunn sem við byggjum síðan ákvarðanir okkar á. Við byrjum í haust þessa stefnumótun fyrir greinina. Það þarf auðvitað algjörlega að tala saman. Þess vegna bind ég mjög miklar vonir við þessa (Forseti hringir.) þolmarkavinnu og hlakka til að eiga samstarf og samtal við þingið um það.