148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:42]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Þær voru ansi margar og ég reikna ekki með að ná að svara þeim öllum tæmandi.

Ég vænti þess að hv. þingmaður sé að vísa í Hellisheiðarvirkjun þegar hún nefnir hvort þetta sé algjörlega með sjálfbærum hætti eða ekki, annars kemur hv. þingmaður betur inn á það í seinni ræðu ef ég misskil það.

Hvað varðar húshitunina er fjárlagaliður sem kostar þá jöfnun og það hefur gengið ágætlega.

Hvað varðar jöfnun dreifikostnaðar hefur hins vegar ekki gengið eins vel. Markmið ríkisins um að ná ákveðnu hlutfalli þar hefur ekki gengið sem skyldi. Við virðumst svolítið vera að elta skottið á okkur. Verðið hækkar þegar við setjum auknar fjárhæðir á fjárlög hvað það varðar. Þetta er eitt af því sem hópur sem er að störfum um þrífösun rafmagns er að skoða, það að við séum með tvær gjaldskrár. Eitt af því sem hægt er að velta upp er hvort eigi bara að vera ein gjaldskrá en ekki tvær. Það þýðir að kostnaður í þéttbýli muni væntanlega hækka að einhverju leyti til að jafna það úti á landi.

Ástæðan fyrir því að þetta er til skoðunar í þessum hópi varðandi þriggja fasa rafmagn er að ef við ætlum að fara í meiri háttar uppbyggingu þar og eina leiðin er að setja það út í gjaldskrána myndi það auðvitað hækka verulega á þeim svæðum. Þetta eru mjög stórar spurningar og þeim er ekki svarað í fjármálaáætlun, enda er sú vinna í gangi.

Hvað varðar húshitunina hefur það gengið mun betur og er sérstaklega á fjárlögum að það kosti og það fjármagnar (Forseti hringir.) það þannig.