148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:51]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Það er hárrétt sem þar kemur fram hvað varðar samfélagslega þáttinn og samfélagslegu þolmörkin. Við erum í dag með tæplega átta ferðamenn á hvern íbúa. Þess vegna hefur verið ákveðin einföldun að segja að við búum í stóru landi og getum tekið á móti fjöldamörgum milljónum ferðamanna. Málið er ekki svo einfalt. En þess vegna skiptir líka miklu máli að okkur takist að dreifa ferðamönnum um landið allt, bæði til þess að allt landið njóti góðs af en líka til þess að við dreifum álaginu.

Áfangastaðaáætlanirnar skipta miklu máli, hafa verið í vinnslu í töluverðan tíma og ganga út á að hvert landsvæði fyrir sig marki sér sína sérstöðu, ákveði hjá sér hvernig áfangastaður það svæði vill vera, og að þær áætlanir talist síðan á við skipulagsvinnu sveitarfélaga og að samstarfið þar sé gott. Markaðsstofurnar hafa sinnt mjög góðu starfi hvað þetta varðar sem og öðrum verkefnum sem þær sinna.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega hvernig samskiptin milli Ferðamálastofu og markaðsstofanna eigi að vera til framtíðar. Hingað til hefur ráðuneytið falið Ferðamálastofu að gera samningana við markaðsstofurnar. Það á einnig við um þá samninga sem nú eru í vinnslu milli Ferðamálastofu og markaðsstofanna. Ferðamálastofa er sú fagstofnun í ferðamálum sem undir ráðuneytið heyrir. Það fer alveg saman við frumvarp sem ég hef mælt fyrir um Ferðamálastofu og hlutverk stofnunarinnar. Hvernig það verður til framtíðar er nokkuð sem við getum metið hverju sinni og ekkert kemur í veg fyrir að því sé hægt að breyta.

Við höfum hingað til litið svo á að Ferðamálastofa sé sú stofnun sem eigi að vera í þessum samskiptum við markaðsstofurnar. Ég tek þó fram að ráðuneytið er í miklu, góðu og nánu samstarfi við markaðsstofurnar allar.