148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:54]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og tel einmitt mikilvægt að þetta komi fram við þessa umræðu. Þegar breytingar standa yfir á stofnunum vekur það óhjákvæmilega ákveðið óöryggi um framkvæmd verkefna sem eru í gangi.

Nú langar mig að koma aðeins inn á orkumálin þar sem stóra verkefnið er langtímaorkustefna. Í þeim hluta fjármálaáætlunarinnar eru líka mikilvæg markmið varðandi stjórnun og þróun orkumála sem miða bæði að bættum búsetuskilyrðum og styðja við vinnu að markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Í umræðunni hefur verið komið inn á markmið um jöfnun orkukostnaðar vegna dreifingar raforku og húshitunar á landsvísu, bæði niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á köldum svæðum og dreifingu raforku í dreifbýli sem er afskaplega mikilvægt. Svo tel ég mikilvægt að draga fram markmiðið um að setja eigi lágmarkskröfur um afhendingaröryggi raforku sem gildi um land allt.

Aðgerðir sem tengjast þessum markmiðum eru m.a. hröðun á þrífösun rafmagns í samstarfi við orkufyrirtæki, greining á möguleikum til að koma upp fleiri smávirkjunum á landsvísu og staðbundnum lausnum í orkumálum og varmadæluvæðing á stórum og smáum skala á köldum svæðum á tímabilinu. Í því sambandi langar mig að spyrja ráðherra hverjir séu hugsanlegir samstarfsaðilar við að koma upp varmadælum um landið. Hvar verður yfirumsjón með því verkefni af hálfu stjórnvalda?