148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir yfirferðina yfir málefnasviðið. Ég get ekki ímyndað mér að hún sé raunverulega ánægð með áætluð framlög í aðra málaflokka en nýsköpun þar sem á árunum 2018–2023 er dregið úr framlögum til bæði orkumála og ferðamála, um 506 milljónir annars vegar og 343 miljónir hins vegar. Þetta hlýtur að vera töluvert áfall fyrir ráðherra þar sem um er að ræða tvo ört vaxandi málaflokka sem bæði skila miklum tekjum til þjóðarbúsins og standa frammi fyrir umtalsverðum fjárfestingum.

Á sama tíma ætlar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að skera niður framlögin til þeirra.

Ef við lítum til orkumálanna er ljóst að hér eru sett fram gífurlega metnaðarfull markmið sem ég hugsa að við getum flest verið sammála um. En svo er boðaður niðurskurður. Ef við horfum til stóraukins hlutverks opinberra aðila í áætluðum orkuskiptum get ég ekki ímyndað mér að þessi áætlun sé sérlega raunhæf og velti því fyrir mér hvort hreinlega sé nóg að gert. Samkvæmt markmiðum áætlunarinnar er gert ráð fyrir 13% hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Það er því miður ekki í neinum takti við Parísarsamkomulagið. Þegar loftslagsmarkmiðin verða samþykkt er ljóst að hætta verður á háum sektargreiðslum. Við þurfum nefnilega að greiða sekt ef við stöndum ekki við skuldbindingar okkar. Það verður þannig umtalsvert dýrara fyrir íslenskt samfélag en einfaldlega að standa við sitt og gera betur.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji það virkilega raunhæft að ná þessum markmiðum á þann hátt sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi áætlun. Og sömuleiðis hvort hún telji þetta vera nóg til að gera Íslandi kleift að standa við skuldbindingar sínar í Parísarsamningnum.