148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:19]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst til að bregðast við því hvort þessi fjármálaáætlun sé áfall fyrir mig þá er það ekki svo, hún er alls ekki áfall. Ég hef verið mikill talsmaður þess að við séum mjög dugleg við að fara yfir hvar fjármunirnir liggja, hvort þeir séu á réttum stöðum; og svo snýst margt af því sem við gerum einfaldlega um forgangsröðun. Það eru mörg verkefni sem við sinnum. Öll eru þau ágæt en þau eru mismikilvæg. Ég er ekki ósátt við að þurfa að forgangsraða innan míns ráðuneytis.

Ég hefði ekki sett markmið inn í fjármálaáætlun sem ég teldi óraunhæft að við gætum staðið við. Þess vegna tel ég að það sé algerlega raunhæft að ná þeim markmiðum sem þar eru sett fram.

Hvað varðar orkuskiptin og þau markmið er það sem betur fer svo að það er ekki eingöngu stjórnvalda að ná þeim, þ.e. að vinna þá vinnu sem þarf að vinna til að þeim verði náð, heldur kemur þar til öflugt samstarf, sérstaklega atvinnulífs og stjórnvalda. Það er atvinnulífið sjálft sem er öflugt og getur unnið ýmislegt, það er þess hagur; sömuleiðis almennings. Hvað varðar niðurskurðinn eru þetta ekki verulegar breytingar. Ef við tökum frá tímabundnar viðbótarfjárveitingar, sem voru til að mæta þörf fyrir stofnstyrki til hitaveitna vegna lagabreytinga sem gerðar voru hér, er þetta ekki niðurskurður hvað varðar orkumálin.

Í ferðaþjónustunni hef ég nefnt flugþróunarsjóð þangað sem við höfum verið að setja 300 milljónir á ári en aðeins lítið brot af þeim fjármunum hefur farið út. Við hefðum í raun viljað sjá meiri fjármuni fara þaðan út. Það hefði þýtt frekara umfang hvað það varðar. En það hefur ekki verið. Þess vegna munu þeir fjármunir flytjast á milli ára og við getum þá dreift þeim á lengri tíma.

Sömuleiðis höfum við ekki fengið frumvarp í gegn hjá ESA hvað varðar þá ríkisaðstoð sem felst í flugþróunarsjóðnum. Þess vegna eru milljónirnar á hvert verkefni fyrir sig ekki margar.