148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:26]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Fyrst til að svara spurningunni um salernin, blessuðu, gerum við ráð fyrir að hægt sé að fara í útboð til þriggja ára til að geta sett upp þessi salerni að vori þannig að þau yrðu tekin niður að hausti svo við getum lengt tímabilið, fjölgað stöðunum. Við fórum í þetta verkefni í fyrsta skipti á síðasta ári og það gaf mjög góða raun. Þetta skiptir máli sem sú sjálfsagða þjónusta sem við þurfum auðvitað að sinna og það er ekki gert ráð fyrir neinni gjaldtöku hvað þetta varðar.

Það er hins vegar ánægjulegt að sjá að aðilar hafa verið að byggja upp og eru að vinna að því að byggja upp þessa aðstöðu víða um land. Auðvitað myndum við vilja sjá það í ríkari mæli. Þá væri minni þörf fyrir ríkisvaldið að stíga þar inn. Það getur vel verið að á einhverjum svæðum verði aldrei neinar markaðslegar forsendur til að fara í slíka uppbyggingu og það verkefni verður þá áfram hjá ríkinu.

Hvað varðar sjálfbærniviðmiðin er rík áhersla lögð á þau í fjármálaáætluninni, einfaldlega vegna þess að ég held að það sé grunnurinn að því að við getum byggt upp ferðaþjónustu, tryggt að hún blómstri og verði áfram sú atvinnugrein sem hefur bætt bæði lífskjör og lífsgæði fólks úti um allt land, þrátt fyrir að við vitum öll að það þurfi að stuðla að betri dreifingu um landið allt. Það er verkefnið sem við höfum farið í hjá Stjórnstöð ferðamála, að finna út sjálfbærniviðmið og reyna að meta þolmörk Íslands í ferðaþjónustu hvað varðar umhverfisþáttinn, samfélagslega þáttinn og efnahagslega þáttinn. Þetta skiptir verulegu máli til (Forseti hringir.) að byggja allar áframhaldandi ákvarðanir til framtíðar á.