148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:32]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vildi árétta hér varðandi orð hæstv. ráðherra áðan um verulegar niðurgreiðslur á raforku til garðyrkjubænda. Þessar niðurgreiðslur ná bara til dreifingar. Orkan sjálf er á fullum prís. Dreifingin ef ég man rétt, ég ætla nú ekki að hengja mig alveg upp á þessar tölur, er að meðaltali u.þ.b. 30% af heildarkostnaði raforkuverðs. Garðyrkjubændur eru kannski ekki að fá það mikið vegna þess að sérstaða þeirra — hv. þingmaður minntist á búvörusamninginn sem ætti að sinna þeim — felst að sjálfsögðu í því að orkunotkun er gríðarleg.

Mig langaði til að taka undir orð hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar í sambandi við afhendingaröryggi á raforku um allt land og hröðun á þrífösun. Þær stagbætur sem verið er að bjóða upp á núna, eins og varmadælurnar sem á jafnvel að fara að fjölga, hafa bara ekki gefist vel. Þetta er bæði mikill kostnaður fyrir þann sem þarf að fá sér varmadælu og þær bila, þær henta ekki fyrir tækin sem verið er að nota í atvinnurekstrinum, sérstaklega hjá bændum, þannig að þetta er ekki að gefast vel.

Fjárfestingarþörfin í flutnings- og dreifikerfinu, til þess að auka þetta afhendingaröryggi og þrífösun, er slík að hvorki Landsnet, Rarik eða aðrar dreifiveitur hafa bolmagn til að ráðast í þær fjárfestingar sem þarf. Ég er glöð að heyra að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því og að því ljúki þá ekki fyrr en 2036.

Til viðbótar því gerir ríkið kröfu um arðgreiðslur frá (Forseti hringir.) þessum fyrirtækjum þannig að fjárfestingargetan minnkar enn. Það þarf annaðhvort mikla (Forseti hringir.) fjármögnun frá ríkinu eða stórkostlegar hækkanir á gjaldskrá.