148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:39]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér enn tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og erum að ræða þætti sem snúa að hæstv. ferðamála-, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Ég ætla að koma með fleiri spurningar eins og ég boðaði. Ég hef áhuga á að spyrja hæstv. ráðherra um leiðsögumannanám.

Öllum er ljóst mikilvægi þess að ferðamenn sem landið sækja njóti hér góðrar leiðsagnar og finni þannig í ferðum sínum til hins mesta öryggis. Það er mjög mikilvægt að ferðamenn sem Ísland sækja heim fái staðgóða leiðsögn um náttúru landsins, njóti náttúrunnar og fræðist um hana og sögu landsins, fræðist um landið og íbúa þess, störf þeirra og lífsviðurværi. Hér á landi eru nokkrir skólar, sumir á háskólastigi, sem bjóða upp á gott, innihaldsríkt og krefjandi nám í leiðsögn sem býður upp á að nemendur læri allt sem áður var upp talið og einnig að umgangast náttúruna af virðingu þannig að hún beri ekki skaða af.

Ég spyr ráðherra: Er ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að gerð verði krafa um að ferðahópum um landið fylgi íslenskur leiðsögumaður, m.a. til að tryggja öryggi farþega og vernd náttúrunnar? Er ráðherra reiðubúinn til að beita sér fyrir því að starfsheiti leiðsögumanna verði lögverndað?

Örlítið meira um þetta. Til rannsókna í ferðamennsku er nú einungis sett 1% af öllu því fé sem sett er í rannsóknir á atvinnulífi Íslendinga. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála því að þarna mætti gefa verulega í og þarna séu tækifæri til að sækja fram einmitt í þessari atvinnugrein sem er svo ört vaxandi og skapar svo mikinn hluta af gjaldeyristekjum okkar. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra hafi hugsað sér að gefa þarna í.