148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:41]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi leiðsögumenn þá hefur ferðaþjónustan aukist verulega og við erum með ýmis verkefni sem því fylgir. Vakinn er dæmi um gæðakerfi sem hægt er að beita og það skiptir öllu máli að við tryggjum gæði þeirrar þjónustu sem við veitum. Ég hef verið með opinn hug gagnvart því að við gerum mismunandi kröfur eftir ferðum; að í ákveðnum ferðum sé hugað sérstaklega að öryggissjónarmiðum. Í ferðum þar sem nauðsynlegt er að þekkja vel til staðarhátta eða annars ætti að vera hægt að gera þær kröfur að leiðsögumaður stýri þeim.

Hvort starfsheitið eigi að vera lögverndað, hvort ég muni beita mér fyrir því — ég hef áður svarað fyrirspurn þess efnis, og ég hef svo sem ekki breytt um skoðun. Þar fer ég yfir þessar vangaveltur um Vakann og gæðin og kröfurnar. En það að starfsheitið sé lögverndað, ég hef ekki fallist á að rétt sé að gera það. Ég veit að margir eru ósammála mér og ég fékk viðbrögð við því á sínum tíma. En ég hef ekki breytt um skoðun hvað það varðar. Ég tel einfaldlega að við getum náð þeim markmiðum sem skipta mestu máli án þess að það verði gert.

Hvað varðar rannsóknirnar þá er ég sammála því. Þessi nýlega skýrsla sem hér hefur verið lögð fram sýnir hversu rannsóknirnar hafi verið gloppóttar og tilviljanakenndar. Það er auðvitað vegna þess að fjármagn til þeirra hefur skort. Ég hef talað um litlu Hafró. Við sjáum vísi að því verða til. Það er vegna þess að við höfum forgangsraðað í það. Ég sé fyrir mér að fjármagn til rannsókna muni áfram aukast á næstu árum. Ég held að veruleg þörf sé á því. Náttúran er auðlind sem við þurfum að nýta og við verðum að veita aukna fjármuni í rannsóknir á komandi árum.