148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:43]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þau svör sem hún veitti. Hún er ekki reiðubúin til að fallast á að starfsheiti leiðsögumanna verði lögverndað eða að íslenskur leiðsögumaður fylgi ferðamönnum um landið. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða það mál gaumgæfilega áfram.

Varðandi rannsóknirnar þá er það rannsóknarefni hve dreifing ferðamanna yfir árið á Íslandi hefur breyst gífurlega á undanförnum árum. Það er rannsóknarefni. Það er ekki síður rannsóknarefni að spyrja sig að því: Af hverju dreifast ferðamenn ekki betur yfir landið en nú er?

Ég vil koma með eina spurningu í lokin fyrst ég hef 15 sekúndur, það er varðandi löggjöf um vindmyllur, hvort verið sé að vinna að því í ráðuneytinu, hvernig þeirri vinnu vindur fram og hversu langt hún er komin. Þetta er nýtt svið eins og við þekkjum og vaxandi og mun eflaust vaxa héðan í frá.