148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég verð nú að segja að ég er engu nær varðandi þá málaflokka sem fjallað er um, sér í lagi málefni erlendra borgara sem hér óska dvalar. Það er nefnilega rétt að upplýsa að hæstv. ráðherra um að útlendingamál eiga við um fleiri en bara þá sem leita hér verndar. Útlendingamál varða ung börn erlendra foreldra sem fædd eru hér á landi, ung börn sem fædd eru úti í heimi og koma hingað með foreldrum sínum, ungt fólk í námi, eldra fólk sem kemur hingað og vill sameinast fjölskyldum sínum seint á lífsleiðinni, iðnnema, starfsnema, doktorsnema, íþróttahetjur og farandverkamenn.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er ekki einu orði vikið að þessum fjölmenna hópi. Ekkert er fjallað um hvernig ráðherra málaflokksins ætlar að veita þeim góða þjónustu sem hingað koma og hér vilja búa.

Það eru nefnilega ekki mínar lýsingar, ráðherra, sem ég var að vitna í, heldur lýsingar úr fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þegar aðrir málaflokkar á þessu málefnasviði eru skoðaðir er eitt markmiða í öllum tilvikum sagt vera að gera þjónustukönnun til að fylgjast með ánægju viðskiptavina og hvernig bregðast megi við ef á bjátar, nema í einum málaflokki. Og í hvaða flokki skyldi það nú vera? Einmitt hjá þeim viðskiptavinum sem þurfa að leita til Útlendingastofnunar. Þar þarf ekki að kanna hvernig þjónustustigið er. Er það tilviljun, herra forseti? Ég er ekki viss um það.

Málsmeðferð á líka við um þá sem, hingað koma og óska eftir dvalarleyfi. Íslenska ríkið þarf ekki að borga eina krónu fyrir þá einstaklinga sem hér bíða mánuðum og jafnvel árum saman, lítil börn án þjónustu, á meðan Útlendingastofnun er að afgreiða umsókn þeirra.

Að lokum, af því að klukkan er orðin margt og ég vil ekki þreyta hæstv. ráðherra frekar, vil ég spyrja: Er hið miður vinalega viðhorf hæstv. dómsmálaráðherra til þessa hóps í samfélaginu ráðherranum að skapi? (Forseti hringir.) Var honum kunnugt um það áður en ræða mín hófst að ekkert er (Forseti hringir.) fjallað um þá útlendinga sem hingað koma (Forseti hringir.) einfaldlega vegna dvalarleyfis og sækja um dvalarleyfi?