148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:17]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Málefnasviðin sem heyra undir hæstv. dómsmálaráðherra eru að stofninum til þrjú, eða tæplega þrjú. Ég ætla aðeins að einbeita mér að tveimur þeirra og byrja á málefnasviði 10, sem fjallar um réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýslu dómsmálaráðuneytisins. Þar undir falla málefni Persónuverndar, trúmál, sýslumenn, stjórnsýsla dómsmálaráðuneytisins og útlendingamál. Mig langar að fókusera á það síðastnefnda.

Eins og hæstv. ráðherra er kunnugt um kemur fram í texta tillögunnar að undanfarna mánuði hafi þeim sem sóttu um alþjóðlega vernd heldur fækkað miðað við það sem var mánuðina þar á undan, og gefið í skyn að hægt sé að gera ráð fyrir að það haldi eitthvað áfram, eða að það megi kannski ætla það. Ég hef hins vegar dálitlar áhyggjur af því, af því að í áætluninni er í rauninni ekki gert ráð fyrir neinni hækkun á þessu málefnasviði, eða mjög litlu, á tímabilinu.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé þá ekki mögulegt og líklegt að komi til þess á tímabili áætlunar að það hald manna breytist. Ég vil í því sambandi minna hv. þingmenn á að við höfum staðið frammi fyrir gríðarlegri aukningu á fyrri hluta síðasta árs þar sem töluverð hækkun varð á fjárframlögum vegna þess. Er þá ekki á hreinu að við munum bregðast við því í endurskoðun á fjármálaáætluninni? Telur ráðherrann að þar sé svigrúm til að bregðast við slíkum breytingum?