148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held við getum sagt um þennan málaflokk að um hann ríkir alltaf töluvert mikil óvissa. Ég hef rakið að við höfum á undanförnum árum oft vanmetið þörfina fyrir fjármagn til þess að þjónusta þá starfsemi sem þar fer fram.

Mig langar aðeins að nefna nokkrar tölur sem skipta máli varðandi fjárþörfina í málefnum flóttamanna eða hælisleitenda. Við höfum breytt lögum og reglum. Mér finnst hafa verið ágætissamstaða um það í þinginu að við þyrftum að taka sérstaklega á því sem skilgreint hefur verið sem tilhæfulausar hælisleitanir. Staðan var sú á haustmánuðum 2016 að 84% heildarfjölda umsókna um alþjóðlega vernd féll í flokkinn tilhæfulausar umsóknir — 84% allra umsókna. Það var á haustmánuðum 2016. Núna í mars á þessu ári hafði það hlutfall farið úr 84% niður í 18%. Þegar flest var nýttu 820 manns sér þjónustu í búsetuúrræðum á vegum Útlendingastofnunar. Það var í september 2016, þá var það hlutfall var í hámarki. Þeim hefur nú fækkað um tæplega 400 manns á síðasta rúma árinu.

Það sýnir okkur að verulega mikil breyting er að verða í samsetningu umsókna. Þær breytingar sem við höfum gert á lögum skila nú tilætluðum árangri. Bæði fellur hlutfall þessara umsókna nú mjög skarpt og þau úrræði sem stjórnvöld hafa nú hafa leitt til þess að við erum með mun færri í (Forseti hringir.) búsetuúrræðunum. Það hefur áhrif á fjárþörfina í fjármálaáætluninni.