148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Í seinni ræðu minni langar mig að tala um hinn aðalmálaflokkinn, hin málefnasviðin, þ.e. nr. 9, en þar er fjallað um almanna- og réttaröryggi. Þar er m.a. talað um, og er ástæða til að fagna því, að fjárfesta eigi í þyrlum þannig að björgunarmálum verði komið í skikkanlegt horf. Það er mikið gleðiefni fyrir alla.

Þar er einnig talað um það átak sem gert hefur verið í fjárstreymi til kynferðisbrotamála og meðferð á þeim og ráðningu starfsmanna í þann málaflokk, sem er afar mikilvægt og er ástæða til að fagna því einnig.

Mig langar hins vegar að eiga orðastað við hæstv. ráðherra varðandi hvort hann telji að nýlega samþykkt breyting á almennum hegningarlögum um skilgreiningu á nauðgunum, sem ákveðin var hér í þinginu í mikilli samstöðu, muni með einhverju móti geta haft áhrif á þá fjárþörf sem málaflokkurinn hefur. Verður ekki örugglega brugðist við því? Verður svigrúm til þess? Einnig vil ég spyrja hvort það muni ekki mögulega gerast þegar við tökum næstu skref í þessum efnum, sem ég tel að eigi að vera að taka á mansalsmálum af myndugleik — að þegar við förum í þá vegferð hvort áætlunin veiti þá það svigrúm sem þarf til þess að bregðast við þannig að þingmenn og landsmenn allir geti verið sáttir við það.