148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um sýslumenn. Við höfum fækkað þeim embættum, styrkt þau og eflt. Rafræn stjórnsýsla mun hafa veruleg áhrif á sýslumannsembættin og við vonumst til þess að ná árangri við að auka við rafrænar þinglýsingar á komandi árum. Reyndar eru ótrúlega spennandi hlutir að gerast þar í alþjóðlegu samhengi á sama tíma, samanber það sem við sjáum gerast í umræðu í tengslum við „blockchain“ og þá möguleika sem kunna að vera að opnast þar til að byggja grunn fyrir eignaskráningar í framtíðinni. Ég þekki það af eigin raun frá árinu 1995 eftir að hafa verið að vinna sem sýslumannsfulltrúi, annars vegar með handvirkar þinglýsingar og hins vegar rafræna skráningu. Það átti við um ökutækjaskrána, hún var rafræn en fasteignaskráin var þá færð handvirkt, og við höfum svo sannarlega færst eitthvað fram veginn í að rafvæða þessi verk öllsömul en við eigum samt sem áður, þó að nú séu liðin — ég ætla varla að þora að nefna það — rúm 20 ár, töluvert verk eftir óunnið þarna. Með því að rafvæða þessa þjónustu getum við aukið skilvirkni og hraða, sem sagt málsmeðferðartíminn fellur en öryggið getur um leið stóraukist.

Varðandi nýjar tilskipanir á sviði persónuverndar hef ég í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem hv. þingmaður segir hér, við erum að fara að stórauka réttindi fólks til að vera betur meðvitað og fá persónugreinanlegar upplýsingar sem er verið að vista um það sjálft og regluverkið í þessu efni mun taka gagngerum breytingum sem kann að leiða til aukins álags á þær stofnanir sem hér eiga að hafa eftirlit. Því verður fylgt mjög ákveðið eftir.