148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:48]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég fletti þessu nú upp varðandi sérfróða meðdómendur, fyrst hæstv. ráðherra minntist á þá. Tölurnar þar 2011: 48 milljónir, og svo eykst þetta ár frá ári. 2016: 114 milljónir. 2017: Yfir 100 milljónir. Þetta eru ekkert hrunmálin, þetta er eitthvað annað. Þeim lauk að langmestu leyti kannski 2011–2013.

Ég er með fleiri spurningar og ætla ekki að fara nánar í þetta en þakka gott svar. Þetta þarf auðvitað að skoða. Við erum svo heppin að ráðherra er einnig hæstv. fjármálaráðherra og ég ætla að spyrja um tollamálefni líka og gegnumlýsingarbifreið tollsins, hún er frá 2008, tíu ára gömul. Hún er barn síns tíma. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort og hvenær hann hafi hugsað sér að bæta þarna um betur og fjárfesta í nýrri slíkri bifreið. Þetta er auðvitað mjög nauðsynlegt tæki fyrir tollinn til að gegnumlýsa bifreiðar og gáma og nýtist alls staðar á landinu og það er bæði fælingarmáttur í þessu fólginn og gagnlegt til að leita að fíkniefnum og fylgjast með vöruinnflutningi almennt séð. Þetta kostar 400 milljónir. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé á döfinni að endurnýja bifreiðina, orðin tíu ára gömul, og einhverjar áætlanir um það.

Fyrst við erum farin að tala um tollinn þá vil ég nefna tollverðina, þeim hefur ekkert fjölgað síðustu ár, síðustu 20 árin. Talan hefur sveiflast aðeins en þetta er mjög svipuð tala, plús/mínus 10, 15, en engin fjölgun. Ég spyr: Meðan íbúum fjölgar svona mikið og ferðamönnum svona mikið og innflutningur eykst svona mikið er ekkert (Forseti hringir.) verið að gefa í varðandi tollinn?