148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi tollgæsluna í landinu höfum við nýlega tekið nokkuð djúpa umræðu um hana. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tek undir með hv. þingmanni þegar kemur að því að við þurfum að tryggja tollvörðum í landinu besta mögulega búnað. Það er rétt að þessir gegnumlýsingarbílar eru eitthvað komnir til ára sinna. Ég hef valið í mínu starfi í fjármálaráðuneytinu að hlusta eftir þeirri forgangsröðun sem tollstjóri leggur áherslu á. Það er vissulega rétt að það hefur þurft að fjölga tollvörðum. Þeim hefur fjölgað nokkuð á undanförnum árum, kannski ekki eins mikið og hv. þingmaður telur að hefði þurft að gera. En þessi greiningartæki og -tól eru farin að skipta æ meira máli. Alþjóðleg samvinna skilar upplýsingum til okkar og nauðsynlegt að menn séu í þeim samskiptum til að fylgjast með nýjustu breytingum sem eru að verða á tilraunum til að fremja lögbrot. Síðan er það nú bara þannig að hryðjuverk og aðrir slíkir þættir eru farnir að koma æ oftar upp í samtölum eftirlitsaðila á þessu sviði yfir landamæri.

Samantekið vil ég vísa í það sem fram kom í umræðu fyrir skemmstu um að tollgæslan þurfi að beita nýjum aðferðum. Við þurfum að tryggja tæki og tól, allt frá leitarhundum til gegnumlýsingarvéla. En með því að hagnýta nýjustu tækni getum við sömuleiðis náð mjög miklum árangri. (Forseti hringir.) Við höfum verið að fjölga tollvörðum en það er ekki endanlegur mælikvarði á það hvort við séum á réttri leið í þessum störfum.