148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er kannski ósanngjarnt af mér að ætlast til þess að ráðherra svari því skýrt og skorinort hvort það sé þá einfaldlega búið að leggja þessum tillögum frá árinu 2013 til hliðar. Því að eins og ég gat um áðan er langur vegur frá 236 lögreglumönnum yfir í 30, jafnvel 60, lögreglumenn. Það er eitthvað sem við spyrjum þá hæstv. dómsmálaráðherra um þegar hún kemur aftur.

Mig langar að fara í eitt af markmiðum í kaflanum um dómstóla. Þar segir m.a. að aðgangur að dómstóli sé greiður, málsmeðferð skilvirk og réttlát og mannréttindi virt. Síðan kemur: Dómstólar njóti trausts. Ég tel þessa síðustu setningu vera nokkuð áhugaverða í ljósi þess að það er engin aðgerð í fjármálaáætluninni sem slíkri sem miðar að því nákvæmlega að auka traust á dómstólum. Eins og við vitum hefur traust á þeim mælst núna nýlega í sögulegu lágmarki, 32%.

Ég tel að við getum öll sameinast um að efla traust á dómstólum. Ég tel það nokkuð sérstakt að setja markmið í fjármálaáætlunina án þess að ákveða síðan aðgerðir til að ná því markmiði. Þörfin er brýn og við vitum að markmiðin nást ekki af sjálfu sér.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hversu miklu fjármagni verði nákvæmlega varið í þetta atriði, að efla traust á dómstólum, og hvernig mun því nákvæmlega varið? Mun liggja fyrir áætlun? Verður það rætt hér á þingi? Verður farið í þessar markvissu aðgerðir? Við hljótum að ræða fjármálaáætlun m.a. út frá þeim aðgerðum sem hljóta að koma í kjölfarið á þeim markmiðum sem í henni eru sett.