148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi traust á dómstólum hefur það sem málefni ratað inn í stjórnarsáttmála á undanförnum árum og orðið tilefni til málþinga, m.a. hjá Dómarafélaginu. Þegar upp er staðið held ég að við getum svo sem ekki tekið það verkefni alfarið í fangið, hvorki dómsmálaráðherrann né þingið, heldur sé það meira eins og sameiginlegt verkefni okkar að huga að öllum þeim atriðum sem gera dómstiginu í landinu kleift að leysa úr þeim verkefnum sem við höfum falið því. Í því sambandi verð ég að minnast aftur á þær breytingar sem við höfum verið að gera á dómstólaskipaninni með því að koma á fót nýju dómstigi.

Ég tel alveg ótvírætt að það geti með árunum aukið tiltrú á dómskerfinu. Dómstólarnir sjálfir, t.d. Hæstiréttur, hafa nýlega brugðist við gagnrýni um ógagnsæi varðandi hagsmuni og sett nýlega reglur um hvernig eigi að gera grein fyrir hagsmunum þeirra sem sitja í Hæstarétti. Ég tiltek þetta vegna þess að það eru kannski dæmi um afmarkaðar einangraðar aðgerðir sem saman safnast í einhvern grundvöll fyrir bættu trausti til dómstólanna. Þar af leiðandi finnst mér ekki ámælisvert að það séu ekki tilteknir, fráteknir, afmarkaðir fjármunir í það verkefni sérstaklega í fjármálaáætluninni, heldur getur það bæði verið með áþreifanlegum og óáþreifanlegum hætti sem við vinnum sameiginlega (Forseti hringir.) að því markmiði með dómstólunum.