148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég svaraði því þannig hér áðan að ef dómsmálaráðherra vildi forgangsraða því takmarkaða fjármagni sem kemur til málefnasviða dómsmálaráðuneytisins í auknum mæli til löggæslunnar myndi ég styðja hana í því. Það verður þá að því gefnu að ekki komi til viðbótarfjármagn á kostnað annarra málaflokka. Ég held að það sé langbest að láta dómsmálaráðherra ráða för í þessari umræðu.

Varðandi rafvæðingu og rafræna stjórnsýslu og upplýsingagjöf hefur lögreglan á undanförnum árum unnið frábært starf, m.a. með því að nota samfélagsmiðla og halda fólkinu í landinu upplýstu um þau daglegu verk sem þar fara fram, halda góðum tengslum við fólk og gefa fólki færi á að senda inn ábendingar o.s.frv. Ég held að við séum rétt að byrja að krafla í yfirborðið á tækifærunum í rafrænum samskiptum lögreglunnar og borgaranna. Dæmi eru um það frá öðrum löndum að hægt sé að fletta upp með mjög einföldum hætti upplýsingum um svo margt úr starfsemi löggæslunnar, allt frá umferðarslysum yfir í alvarlegri brot, staðsetja þau í hverfi og við gatnamót o.s.frv. Ég held að við eigum margt eftir inni þar.