148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Nú gefst mér tækifæri til að þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans áðan um tollgæsluna. Mér er það ljóst, eins og kom fram í umræðum okkar um daginn, að það er ekki bara mannskapur sem þarf, það er tækjabúnaður, það eru hundar, og vissulega mannskap til að sinna þeim. En mig langar að spyrja um upphæð. Hana skorti áðan.

Að öðru. Við erum búin að ræða hér lítillega löggæslu, við erum búin að ræða tollgæslu, við erum búin að ræða það að kynferðisbrot njóti aukins forgangs sem er gott. Það er ein stofnun eftir sem er í algjörum ólestri sem er Fangelsismálastofnun. Það vill svo til að um áramótin biðu 570 einstaklingar afplánunar. Á sama tíma, hæstv. ráðherra, er fangelsið á Hólmsheiði, sem kostaði milljarða í byggingu, hálftómt vegna þess að ekki er til mannskapur til þess að vinna þar. Það er ekki hægt að ráða mannskap.

Þetta er svo óendanlega sorglegt, þetta er eins og að kaupa slökkvibíl og eiga ekki fyrir olíu á hann. Þetta er ekki forsvaranlegt, hæstv. ráðherra. Það er þannig að í fangelsinu á Kvíabryggju er einn fangavörður á næturvakt með 23 fagna á sínum vegum. Svo illa vildi til nú nýlega að þessi eini fangavörður varð fyrir heilsuáfalli á næturvakt, með fullt hús af föngum. Það er ekkert öryggi í þessu. Og hvað gerist ef eldur kemur upp? Einn fangavörður á vakt, þetta er óforsvaranlegt, ráðherra góður. Því langar mig til að spyrja: Hvað á að gera til að leysa það ófremdarástand sem er í fangelsum landsins? Fangaverðir eru orðnir það fáir á vakt að það horfir til vandræða. Ég bið hæstv. ráðherra að svara mér um það hvað eigi að gera í þessu máli.