148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. En mig langar að biðja hann um að stíga hér í salinn vegna þess að ég er með tillögu fyrir hann. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert að færa þjónustu frá Akureyri og hingað suður; skilur reyndar fangelsið á Akureyri eftir í nokkrum sárum. En ég er með tillögu fyrir hæstv. ráðherra fyrst svo vel ber í veiði að við erum hér með í einum og sama manninum bæði dómsmála- og fjármálaráðherra, hæstvirta.

Ég er með þá tillögu fyrir hæstv. ráðherra að nú þegar um mitt ár fái Fangelsismálastofnun aukafjárveitingu til að geta stytt biðlistann, 570 manna biðlista, umtalsvert. Ég bið hæstv. ráðherra að hafa í huga að það munar töluvert um það — við erum að tala um dóma sem eru 12 mánuðir plús. Það skiptir verulegu máli að byrja að vinna þennan stabba niður nú strax í júní frekar en um næstu áramót. Því heiti ég á ráðherra, við getum bara handsalað það nú, fyrst að hann er hér tvíeinn í kvöld, að hann sjái til þess að nú um mitt ár fái Fangelsismálastofnun þessa aukafjárveitingu til þess að stytta þennan biðlista sem er að eyðileggja líf mjög margra sem bíða eftir afplánun árum saman.