148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, þetta er einn angi af réttarvörslukerfinu. Við höfum hér í umræðunni í kvöld verið að ræða um málsmeðferðartíma dómstólanna, hversu miklu það skipti að stytta hann og treysta dómstólana til að þeir geti tekið fyrir á eðlilegum málsmeðferðartíma þau mál sem þangað berast. Síðan er það hinn endinn að þegar um fangelsisdóma er að ræða þarf að tryggja að hægt sé að afplána þá.

Dómsmálaráðherra hefur verið með til skoðunar hvort það sé kostur í stöðunni að færa til fjármagn milli stofnana til að tryggja betur fjármögnun Hólmsheiðar. Enn á eftir að leiða það mál endanlega til lykta. Það er eitt af því sem er til skoðunar. Að öðru leyti vísa ég til þess að við höfum verið hér að ræða um óskiptan lið sem er í fjármálaáætluninni upp á einn milljarð á ári, fjórir milljarðar næstu árin sem tengist m.a. fangelsismálunum, og það gefur sömuleiðis svigrúm ásamt því að taka á löggæslumálunum sem við höfum mest verið að ræða hér í kvöld. Að öðru leyti verð ég bara að lýsa mig sammála hv. þingmanni um að þetta þarf að gerast sem allra fyrst.