148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:15]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Varðandi löggæsluna er kannski að bera í bakkafullan lækinn að ræða um fækkun lögreglumanna. Eða ekki. Ég held að það sé alveg augljóst og hefur komið fram í umræðunni að þeim hefur auðvitað alls ekki fjölgað nægilega mikið miðað við þær greiningar sem gerðar hafa verið. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að rifja þetta upp en það er margbúið að rannsaka og gefa út skýrslur, æ ofan í æ, um að lögreglumenn þurfi að vera miklu fleiri en þeir eru. Talan 200 hefur margsinnis verið nefnd og þetta hefur ekki verið uppfyllt, hvorki núna né fyrir fimm árum eða tíu. Aldrei, og á því virðist ekki vera ráðin bót núna.

Ég legg áherslu á, og ætla ekki að biðja hann um að svara þessu aftur, að aukin verði almenn og sýnileg löggæsla. Það er ekki að gerast með núverandi fjölda lögreglumanna, með lögreglumönnum sem eru uppteknir í alls kyns öðrum verkefnum eins og hefur komið fram hér. Ég ætla frekar að fara í önnur málefni og vil byrja á Landhelgisgæslunni sem hefur kannski minnst verið talað um. Ég fagna því að fyrirhuguð séu þyrlukaup en vil nefna eitt í viðbót, úthaldsdaga varðskipa. Varðskipunum hefur alls ekki verið haldið úti á sjó nægilega mikið í mörg undanfarin ár. Það er mjög mikilvægt að efla hina eiginlegu landhelgisgæslu hér við land. Það snýr að öryggi sjófarenda og ekki síður aukningu og hugsanlegri stóraukningu skipaferða fram hjá landinu með opnun leiða norður fyrir Rússland og yfir á Kyrrahafið. Þetta leggur okkur á herðar ýmsar nýjar skyldur þar sem við erum í miðju Norður-Atlantshafi. Það þarf að auka og efla (Forseti hringir.) skipaflota Landhelgisgæslunnar og efla úthald hans.