148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni. Í þessari fjármálaáætlun er þess vegna gert ráð fyrir að hugað verði að þessari þörf Landhelgisgæslunnar fyrir að styrkja þjónustuna. Við viljum líka leita leiða til að auka hagkvæmni og í því efni mætti eftir atvikum horfa til nýrra orkugjafa. En úthaldsdögum varðskipanna hefur, eins og hv. þingmaður segir, fækkað undanfarin ár. Eitt varðskip er á sjó hverju sinni. Það getur verið allt að 48 klukkustundir að komast á vettvang slyss eða óhapps innan efnahagslögsögunnar. Til að ná viðunandi öryggis- og þjónustustigi, sem er 24 stundir í viðbragðstíma, þurfum við að hafa tvö skip á sjó og við þurfum að fjölga áhöfnum.

Þess vegna er m.a. lögð áhersla á þessa þætti í fjármálaáætluninni. Þyrlurnar leika hér stórt hlutverk. Fullnægjandi öryggis- og þjónustustig í leit og björgun á hafinu umhverfis Ísland gerir ráð fyrir að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar geti nær ávallt komið sjófarendum til bjargar innan sex klukkutíma. Sú viðbragðsgeta er nú einungis tryggð rúmlega helming ársins þar sem áhafnir eru of fáar. Í þessu sambandi er rétt að minnast á að við höfum á undanförnum árum séð að útköllum björgunarþyrlna á landi hefur fjölgað verulega vegna ferðamanna sem er þá nýr þjónustuþáttur sem þarf að sinna. Þegar við horfum til heildartölunnar hafa útköll hjá þyrlum aldrei verið fleiri en árið 2017.