148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni það sem hæstv. samgönguráðherra kynnti í þinginu fyrir nokkrum vikum um að mótuð yrði flugstefna fyrir Ísland og hún yrði mögulega jafnvel hluti af samgönguáætlun með haustinu.

Við Íslendingar eigum okkur ákaflega merkilega flugsögu. Á næsta ári eru 100 ár síðan fyrsta flugvélin fór í loftið á Íslandi í Vatnsmýri í Reykjavík. Á næsta ári er aldarafmæli flugs á Íslandi. Við eigum þessum frumkvöðlum flugs á Íslandi ótrúlega mikið að þakka, hversu mikla framsýni þeir einstaklingar sýndu á árum áður, hvort sem var í samgöngumálum innan lands og síðan um og eftir seinni heimsstyrjöld þegar millilandaflug hófst frá landinu. Menn stofnuðu Flugfélag Íslands í millilandaflugi og síðan Loftleiðir líka.

Þetta er svo merkileg flugsaga að mörgu leyti að árið 1944 verðum við stofnaðilar að Alþjóðaflugmálastofnuninni í Montreal. Það voru ekkert endilega það margar þjóðir sem tóku þátt í því starfi til að byrja með. Við erum stofnaðilar. Sem er ein af forsendum þess að við fáum þetta stóra svæði í flugumferðarstjórn yfir Atlantshafinu. Það kemur út úr því starfi á sínum tíma. Þegar við gerumst stofnaðilar árið 1944 sýnir það ótrúlega framsýni stjórnvalda á þeim tíma, að fara í þetta alþjóðastarf sem tengist fluginu.

Á undanförnum árum höfum við upplifað mikinn efnahagslegan uppgang á Íslandi. Ég vil meina að aflvaki þeirra umbreytinga sem orðið hafa í efnahagslífi þjóðarinnar á undanförnum árum sé íslenski flugreksturinn sem hefur síðan verið undirstaða ferðaþjónustu í landinu. Þess má geta að í gjaldeyristekjum af ferðaþjónustu er flugið um 35–40%. Hér þarf, tel ég, að fara fram mótun slíkrar stefnu og að samgönguráðuneytið og utanríkisráðuneytið vinni saman (Forseti hringir.) að þeirri stefnu. En eins og kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra er um stórt og mikilvægt mál að ræða og víða komið við í þeim efnum.